Fjögur samstarfsverkefni á 5 ára afmæli Stelpur rokka! 

Stelpur rokka! fagna 5 ára starfsafmælinu sínu í ár! Frá því að við byrjuðum með fyrstu rokkbúðirnar í Reykjavík árið 2012 hafa yfir 300 þáttakendur hafa tekið þátt í rokkbúðum og rokksmiðjum. Í ár höldum við 5 rokkbúðir víðsvegar um landið og tökum á móti metfjölda þátttakenda.

Rokkorkan er í hámarki og við ætlum að fagna afmælinu okkar með fjórum stórum samstarfsverkefnum við rokkbúðir í öðrum löndum. Við viljum nýta þann góða meðbyr sem við höfum fengið til að styðja samstarfskonur okkar sem skipuleggja rokkbúðir í öðrum löndum. Við erum hluti af alþjóðlegri hreyfingu rokkbúða sem allar starfa eftir sömu gildum femínisma, félagslegs réttlætis, samhjálpar og samstöðu.  

Rokkbúðirnar eru jafn margbreytilegar og samfélögin sem þau eru staðsett í.  Það er engin ein rétt leið til að styðja við stelpur í gegnum tónlistarsköpun þar sem staða stelpna og transkrakka er ólík frá einu samfélagi til annars. Það er því engin ein rétt leið til þess að framkvæma rokkbúðir. Stelpur rokka! eru meðvitaðar um að starfshættir okkar á Íslandi henti ekki endilega fyrir rokkbúðir í öðrum löndum og við byggjum okkar samstarf á meðvitund um menningarlegan fjölbreytileika. Við berum virðingu fyrir sérþekkingu samstarfskvenna okkar í öðrum löndum og okkar hlutverk er ekki fyrst og fremst að miðla okkar reynsluheimi heldur að hlusta, læra og styðja.   


Rokkbúðir á Grænlandi og í Færeyjum

Í júní 2016 munu Stelpur rokka! halda rokkbúðir á Grænlandi og í Færeyjum í samstarfi við grænlenskar og færeyskar tónlistarkonur. Um er að ræða fyrstu rokkbúðirnar í báðum löndunum, vonandi þær fyrstu af mörgum! 

Rokkbúðirnar í Grænlandi verða haldnar í Nuuk dagana 14. til 18. júní í samstarfi við Norðurlandahúsið í Nuuk. Opnað verður fyrir skráningu fljótlega! 

Rokkbúðirnar í Færeyjum verða haldnar í Þórshöfn dagana 22. til. 26. júní í samstarfi við Norðulandahúsið í Þórshöfn. Frestur til að skrá þáttakendur er til 30. maí og hægt er að skrá þátttöku hér

Verkefnastýra rokkbúðanna í Grænlandi og Færeyjum er Þórunn Sigurðardóttir, Áslaug Einarsdóttir  og Ingibjörg Elsa Turchi verkefnastýrur Stelpur rokka! Rokkbúðirnar eru styrktar af Norræna menningarsjóðnum (Nordisk Kulturfond).

 Sjá viðtal við Ingibjörgu um rokkbúðirnar í Færeyjum! 

 
 

Rokkbúðir í Tógó 

Stelpur rokka! munu styðja við framkvæmd rokksumarbúða í Tógó í samstarfi við tógóískar tónlistarkonur og samtökin Sól í Tógó. Um er að ræða fyrstu rokkbúðirnar í Tógó og mögulega þær fyrstu í Vestur Afríku. Rokkbúðirnar verða haldnar dagana 16. til 20. ágúst í borginni Kpalimé. Hópur tógóískra tónlistarkvenna mun sjá um að skipuleggja og framkvæma rokkbúðirnar og markmiðið er að rokkbúðirnar verði að árlegum viðburði. 

Stelpur rokka! munu aðstoða við sjálfboðaliðafræðslu og standa fyrir hljóðfærasöfnun á Íslandi til þess að senda út til rokkbúðanna í Tógó.

Hljóðfærasöfnunin hefst þann 15. apríl og stendur til 7. maí. Við tökum á móti öllum gítörum, bössum, hljómborðum, trommusettum, bassamögnurum, gítarmögnurum og míkrafónum sem eru í góðu standi! Við hvetjum alla sem vilja styðja rokkþyrstar stelpur í Tógó að koma hljóðfærum sem ef til vill eru ekki í mikillri notkun í góðar hendur! 

Hægt er að koma með hljóðfæri í Tónastöðina 50d alla virka daga og laugardaga.

Frétt Vísis um Hljóðfærasöfnunina 

ROKKBÚÐIR GEGN OFBELDI Í PÓLLANDI 

Stelpur rokka! munu halda áfram samstarfi við pólsku rokkbúðirnar Karioka Girls Rock Camp Beskidy í sumar með samstarfsverkefninu Rokkað gegn ofbeldi. Við munum halda gistirokkbúðir fyrir 16 til 20 ára stelpur og transungmenni á Suðurnesjum 21. til 24. júlí en þema búðanna verður rokkað gegn ofbeldi.  Við munum bjóða upp á nýjar og spennandi vinnusmiðjur og fræðast saman um samtakamátt gegn ofbeldi & femínískar byltingar síðastliðins árs. Karioka Girls Rock Camp munu einnig halda rokkbúðir með þemanu rokkað gegn ofbeldi á sama tíma og lögin sem verða til í báðum búðum verða gefin út á safnplötu sem verður aðgengileg á netinu! 

Við erum einnig með fjársöfnun til styrktar pólsku rokkbúðunum á Karolina Fund til 12. júlí og við hvetjum alla vini og velunnara að styðja við búðirnar og tryggja sér flottan bol eða tösku frá Stelpur rokka! í leiðinni. Styðja við rokkbúðir gegn ofbeldi í Póllandi.